You are here

Hrafnkelssjóður

Í minningu Hrafnkels Einarssonar

Hrafnkelssjóður var stofnaður árið 1930 í minningu Hrafnkels Einarssonar stud. polit. sem lést síðla árs 1927 skömmu fyrir lokapróf í hagfræði frá háskólanum í Vínarborg, þá aðeins 22 ára gamall. Verða hér rakin í stórum dráttum æviatriði námsmannsins unga og tildrög að sjóðsstofnun.

Hrafnkell fæddist í Reykjavík 13. ágúst 1905, þriðji í röð fjögurra barna hjónanna Ólafíu G. Jónsdóttur og Einars Þorkelssonar. Þegar Hrafnkell var átta ára slitu foreldrar hans samvistum og fór hann um það leyti til dvalar að Álftanesi á Mýrum til frændfólks föður síns. Hjá hjónunum þar, þeim Mörtu Maríu Níelsdóttur og Haraldi Bjarnasyni, var Hrafnkell síðan næstu árin. Faðir hans kvæntist á ný í ágúst 1918 Ólafíu Guðmundsdóttur og settu þau saman heimili með tveimur börnum Einars af fyrra hjónabandi, þeim Hrafnkeli og Ragnheiði yngri systur hans. Einar var starfsmaður Alþingis og fjölskyldan bjó í þinghúsinu.

Á Álftanesi naut Hrafnkell, ásamt öðrum börnum á heimilinu, kennslu Odds Jónssonar, sonar Mörtu af fyrra hjónabandi. Farskóli var á Borg og þar var Hrafnkell í þrjár vikur í apríl 1917 hjá Þorláki, syni séra Einars Friðgeirssonar á Borg, og tók fullnaðarpróf þá um vorið. Hrafnkell var þingsveinn sumarið 1917, meðan Alþingi starfaði frá júlíbyrjun til miðs september, en dvaldist ella óslitið á Álftanesi til vorsins 1918. Hann bast fjölskyldunni þar vináttuböndum og þangað fór Hrafnkell hverja lausa stund uns hann hélt utan til framhaldsnáms sumarið 1923.

Mál skipuðust svo að haustið 1918 fór Hrafnkell að Fellsmúla á Landi í Rangárvallasýslu til séra Ófeigs Vigfússonar er þar hélt skóla ásamt séra Ragnari syni sínum. Séra Ófeigur var rómaður kennari og skólinn aðsóttur, dvaldist Hrafnkell tvo vetur í Fellsmúla og bjó sig undir inntökupróf í fjórða bekk Menntaskólans í Reykjavík. Var það eini menntaskóli landsins og var sex vetra skóli. Fyrstu þrír veturnir voru gagnfræðadeild og lauk þriðja bekk með gagnfræðaprófi sem veitti rétt til náms í lærdómsdeild ( fjórða til sjötta bekk) sem skiptist í mála- og stærðfræðideild. Ekki var óalgengt að unglingar utan af landi tækju gagnfræðapróf utanskóla en ástæða þess að Hrafnkell er í þeim hópi var að faðir hans þekkti séra Ófeig og kennsluhætti hans og vildi láta son sinn njóta þess. Um sumarmál 1920 kom Hrafnkell til Reykjavíkur og tók þá aukatíma hjá kennurum við menntaskólann í nokkrum fögum, svo sem stærðfræði, eðlis- og efnafræði og náttúrufræði.

Gagnfræðaprófið þreytti Hrafnkell í júnímánuði 1920 og lauk því með góðum vitnisburði. Sumarið sem í hönd fór lærði hann sund í laugunum í Reykjavík, heimsótti venslafólk sitt í Oddgeirshólum í Hraungerðishreppi; búendur þar voru Árni Árnason, bróðir Ólafíu stjúpu Hrafnkels, og kona hans Elín Briem frá Hruna; heimsókn í Álftanes var einnig á dagskrá. Næsta haust settist hann í fjórða bekk máladeildar, voru 16 nemendur saman í bekk og var Hrafnkell yngstur í sínum árgangi. Við fimmtabekkjarpróf vorið 1922 fékk hann í verðlaun fyrir ástundun og framfarir: The Poetical Works of Longfellow. Honum sóttist námið vel og við stúdentspróf vorið 1923 varð hann efstur próftaka með einkunnina 7,48 eftir Örstedskerfi sem þá var viðhaft í skólanum og hæst gefið 8,00; þá einkunn fékk Hrafnkell í þýsku og frönsku á stúdentsprófinu en yfir 7,00 í öllum öðrum fögum.

Hrafnkell hafði í hyggju að leggja stund á hagfræði og fór hann utan sumarið 1923 með skipi til Kaupmannahafnar og þaðan áfram til Kiel í Þýskalandi. Fyrstu vikurnar fóru í að skerpa á kunnáttu í þýsku og síðan hóf hann nám við háskólann í Kiel og nam þar hagfræði næstu tvö árin eða til hausts 1925. Háskólanámið var með allt öðrum formerkjum en hið skorðaða menntskólanám sem Hrafnkell þekkti að heiman. Öll tilhögun var frjáls og á valdi nemenda hvernig þeir höguðu námi. Fyrirlestrar prófessoranna voru þéttriðið net fimm daga vikunnar og stúdentarnir fengu ábendingar um úrvalsbækur í hverri grein sem heppilegt væri að lesa en að öðru leyti voru vinnubrögðin þeim í sjálfsvald sett. Hrafnkell virðist, eftir bréfaskriftum heim að dæma, fljótlega hafa gert sér ljósa ábyrgð hins akademíska frelsis og skipulagt tíma sinn við námið.

Annar Íslendingur var við nám í hagfræði í Kiel á þessum árum. Dr. Kristinn Guðmundsson (f. 1897), síðar kennari við Menntaskólann á Akureyri, utanríkisráðherra og um skeið sendiherra, reyndist Hrafnkeli hollur félagi. Þeir urðu miklir mátar, tóku þátt í stúdentalífinu, iðkuðu manntafl af kappi og lærðu nýjustu dansana sem þá voru að ryðja sér til rúms: fox-trot, five steps, tango og svo auðvitað valsa. Þeir sóttu tónleika, leiksýningar og óperur, heyrðu meðal annars Pétur Jónsson syngja í Wagneróperu, og þá voru þeir vitaskuld í stæði á efstu svölum óperuhallarinnar – annað leyfði pyngjan ekki.

Um veturnætur 1924 var Hrafnkell valinn formaður félags norrænna og þýskra stúdenta í Kiel til eins árs. Fylgdu því fundahöld, bjórkvöld og ýmislegt annað skemmtilegt og telur hann sig ekki komast hjá að fá sér smoking og láta gera “almennilegt” nafnspjald handa sér vegna heimboða og veisluhalda er fylgdu vegsemdinni. Hann segir, í bréfi til móður sinnar, frá heimsókn 20 norskra stúdenta er komu siglandi og syngjandi í heimsókn í maí 1925 og þriggja daga hátíðahöldum af því tilefni.

Enda þótt vetur færi ekki alveg hjá garði í Norður-Þýskalandi voru sumarhitar miklir og þeir félagar, Hrafnkell og Kristinn, fóru oft daglega á baðströnd á gufuskipi er sigldi eins og leið lá fyrir mynni Kielarskurðarins sem liggur þvert yfir Slésvík-Holtsetaland milli Eystrasalts og Norðursjávar. Ströndin var þéttskipuð fólki sem naut sólar og sjávarbaða og þar dvöldust þeir iðulega daglangt.

Hrafnkell var mikill bréfritari og iðinn við að skrifast á við Ragnheiði systur sína og segja henni af því umhverfi sem hann hrærðist í og bera það saman við heimaslóðir þeirra. Honum finnst ungar stúlkur ytra ekki vera eins heimóttarlegar og margar kynsystur þeirra norður í heimi. En nú hafi sér borist sú gleðifregn, með félaga þeirra sem var á ferðinni heiman frá Fróni, að systir sín beri sig ágætlega og hafi góða “figúru”. Hrafnkell vonar að Ragnheiður haldi áfram á þeim vegi og jafnframt að hún sé búin að láta klippa á sig drengjakoll eins og tískan krefji.

Haustið 1925 biður Hrafnkell systur sína að senda sér með næstu skipsferð íslenska málfræði eftir Halldór Briem því hann sé byrjaður að kenna þremur mönnum, sem allir hafa oft verið í heimsókn á Íslandi, íslensku. Þeir eru Dr. Reinsch, Raphael Spann og Fritz Meyer. Prófessor Spann, faðir nefnds Raphaels, er aðalkennarinn í hagfræði við Kielarháskóla og Hrafnkell gerir ráð fyrir að vinna doktorsverkefni sitt, um fiskveiðar við Ísland, undir hans leiðsögn að líkum haustið 1927.

Í Þýskalandi var á þessum tíma mikil dýrtíð, verðlag óstöðugt og erfitt gat verið að láta naumt skorinn stúdentastyrk hrökkva fyrir nauðþurftum, bókakaup voru óhjákvæmilega allnokkur og peningasendingar að heiman til viðbótar knappar. Eftir tveggja ára nám í Kiel brá Hrafnkell á það ráð að leita fyrir sér um annan stað þar sem hentugra væri að búa og jafnframt kennsla viðurkennd að gæðum. Fyrir valinu varð Vínarborg og háskólinn þar.

Í ágústlok 1925 fór Hrafnkell frá Kiel með viðdvöl í Leipzig þar sem stór kaupstefna var opnuð og hafði stjórn stefnunnar boðið 400 háskólastúdentum til viðburðarins. Var þeim veittur góður beini í mat og drykk og haldnir fyrirlestrar um viðskiptaleg og hagfræðileg viðfangsefni.

Hrafnkell kunni þegar í stað vel við sig í Vínarborg. Þegar hann hafði fundið sér húsnæði og komið sér á framfæri við háskólann tók hann að svipast um eftir löndum sínum Þar voru þá stödd hjónin Guðrún Tuliníus og Kristján Arinbjarnarson læknir,

Baldvin Pálsson (Dungal) og Kristján Kristjánsson söngvari og í för með þeim heimsótti Hrafnkell barónshjón von Jaden. Reykjavíkurstúlkan Ástríður Pétursdóttir, systir vísindamannsins Helga Pjeturs, hafði árið 1899 gifst austurískum aðalsmanni Dr. Hans von Jaden og flust með honum það ár til Vínarborgar og búið þar síðan. Þau voru barnlaus en opnuðu heimili sitt fyrir Íslendingum sem komu til borgarinnar og eru margir til frásagnar um það atlæti sem landar nutu þar. Hrafnkell var þar engin undantekning, tókst vinátta með honum og von Jaden hjónunum og reyndust þau honum afburðavel.

Sú venja hafði skapast að Íslendingar í Vínarborg söfnuðust saman heima hjá von Jaden síðdegis á sunnudögum og þáðu kaffi og kökur eins og hvern lysti, síðan fór hópurinn saman á veitingastað að borða. Þessar fyrstu vikur sem Hrafnkell var í Vín voru þau fimm, sem getið var, í sunnudagsheimsóknum hjá Hans og Ástu, eins og hún var jafnan kölluð, glatt var á hjalla og Kristján söng ævinlega nokkur lög. Var þetta Ástu ómetanlegt til að halda lifandi tengslum við land sitt og þjóð og manni hennar ljúft enda var hann sannkallaður Íslandsvinur.

Kristján og Hrafnkell urðu góðir félagar og sóttu tónleika og óperusýningar saman og af nógu af slíku var að taka í Vínarborg sem er óskaland þeirra sem unna tónlist. Sumarið 1926 var mjög heitt, fóru þeir úr bænum í sumarleyfinu og dvöldust um mánaðartíma í Spitz, litlum bæ við Dóná sunnar en Vín. Þar áttu þeir góða daga við sólböð og sundferðir í ánni og komu hressir á sál og líkama til baka.

Framundan var lokaáfangi hjá Hrafnkeli að diplomaprófi í hagfræði og lauk hann því í ársbyrjun 1927 eftir að hafa sótt námið af miklu kappi. Viku af október 1926 var haldið í Vín fjölmennt mót þýskra og austurískra hagfræðiprófessora. Sóttu stúdentar málstofur og fyrirlestra hinna virtu lærdómsmanna og var það vissulega hvetjandi ungum mönnum á námsbraut.

Hrafnkell hefur lagt niður fyrir sér tilgang námsins og skipulagt framvindu þess seinustu mánuðina. Hann er í kappi við tímann því stúdentastyrksins nýtur hann ekki lengur en til hausts 1927. Hinn 16. desember 1926 segir hann í bréfi til móður sinnar: “Mig langar til þess að skrifa doktorsritgerðina mína um fiskveiðarnar íslensku, bæði vegna þess að þær eru þýðingarmesti atvinnuvegur okkar Íslendinga og í öðru lagi hefir ekki verið skrifað mikið í heild um slíkt.” Hann hafði rætt þetta viðfangsefni við aðalprófessorinn og var hann því algerlega samþykkur. Hrafnkell ráðgerir að fara heim til Íslands snemma vors 1927 og safna þar heimildum eftir því sem hann þyrfti, koma svo aftur til Vínar, ljúka ritgerðinni þar og þreyta doktorsvörnina vorið 1928.

Hann hafði undirbúið heimferðina vandlega og aflað sérstaklega fjár til hennar. Leiðin mun liggja til Kiel þar sem hann kemst í hagskýrslur sem ekki er að hafa í sama mæli í Vín, síðan til Kaupmannahafnar og með skipi þaðan til Íslands. Hann hlakkar til að koma heim eftir fjögurra ára fjarveru. “Skrifaðu mér fljótt elsku systir mín,” segir í bréfi til Ragnheiðar 16. nóv. 1926 , “ég er farinn að hlakka til að sjá þig sem myndarlega stúlku.” En þó kóngur vilji sigla hlýtur byr að ráða. Tveimur vikum fyrir brottför í mars 1926 veiktist Hrafnkell skyndilega með háan hita og var veikur upp frá því. Í fyrstu lá hann einn mánuð á sjúkrahúsi í Vínarborg en síðan var hann fluttur á heilsuhælið Alland skammt frá Baden.

Þar lést Hrafnkell úr berklum 4. nóvember 1927.

Hjónin Ásta og Hans von Jaden vitjuðu Hrafnkels í veikindum hans. Eftir andlát hans sáu þau um útförina, létu ganga frá legstaðnum í kirkjugarði í Alland og sendu heim ljósmynd af grafreitnum.

Einnig gengu þau frá persónulegum munum Hrafnkels og sendu heim. Formleg skipti voru á öðru tilheyrandi Hrafnkeli, bókum og búnaði í herbergi, var því komið í verð ytra og andvirðið sent föður hans. Gekk það í gegn 1929 og var samtals kr. 300,00.

Foreldrar Hrafnkels stofnuðu sjóð með þeirri fjárhæð í minningu sonar síns. Skyldi sá sjóður vera, í fyllingu tímans til styrktar ungum efnilegum námsmönnum við nám á erlendri grundu.

Hrafnkelssjóður skyldi þá fyrst verða virkur þegar öld væri liðin frá fæðingu Hrafnkels Einarssonar hinn 13. ágúst 2005.

Konungleg staðfesting á skipulagsskrá Hrafnkelssjóðs varð 5. febrúar 1930. Skipulagsskrá sjóðsins er birt í Stjórnartíðindum fyrir Ísland árið 1930, B - deild. Bergsveinn Ólafsson formaður sjóðsins stóð að birtingunni.

Í samræmi við skipulagsskrá sjóðsins er fullskipuð stjórn hans frá vordögum 2005 þannig:
  Elías Jón Guðjónsson formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, formaður
  Yngvi Pétursson rektor Menntaskólans í Reykjavík
  Steinunn Einarsdóttir menntaskólakennari
  Friðrik Pálsson frá Stúdentafélagi Reykjavíkur
  Stefán Friðfinnsson frá Stúdentafélagi Reykjavíkur.

Þessi fyrsta fullskipaða stjórn Hrafnkelssjóðs gekk frá úthlutunarreglum, auglýsti eftir styrkumsóknum og annaðist úthlutun til fyrsta styrkþega við athöfn í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík, laugardaginn 13. ágúst 2005 þá öld var liðin frá fæðingu Hrafnkels Einarssonar.

----
Björg Einarsdóttir tók saman í júní 2006.